Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls dýr í heimilisleit.

Um 250 dýr í neyð hafa fengið heimili

24 Des 2008

Fréttablaðið, 24. des. 2008

Dýrahjálp Íslands hefur haft milligöngu um nýtt heimili fyrir um 250 gæludýr í neyð á síðustu mánuðum, eða frá því að starfsemin var sett af stað. Þörfin er brýn og markmið samtakanna er að koma á fót sérstöku dýraathvarfi.

DÝRAHALD Um 250 gæludýr í neyð hafa fengið ný heimili fyrir milligöngu Dýrahjálpar Íslands. Starfsemin var sett af stað í maí, þannig að rúmlega þrjátíu dýr að meðaltali hafa skipt um heimili á mánuði frá þeim tíma. „Hópur fólks var búinn að ganga með þá hugmynd að stofna athvarf fyrir dýr í vanda. Í framhaldi af því var heimasíðan sett á laggirnar.“ segir Valgerður Valgeirsdóttir, ein úr hópnum sem stendur að dýrahjálpinni. „Við höfum með heimasíðunni leitast við að finna þeim dýrum sem annars væri lógað, eða jafnvel lentu á vergangi, ný heimili hvort sem það er fósturheimili eða varanlegt heimili.“ Óhætt er að segja að þetta starf hafi fengið fljúgandi byrjun. Auk hins mikla fjölda dýra sem fengið hafa ný heimili hafa fjölmargir verið boðnir og búnir til að aðstoða með einum eða öðrum hætti. Tugir fólks hafa sett sig í samband við Dýrahjápina og boðið fram fósturheimili, þar sem dýrin geta dvalið í bráðatilvikum meðan verið er að finna þeim nýja eigendur. Þá hafa margir boðið fram aðstoð til að styrkja samtökin með einum eða öðrum hætti. Aðstandendur Dýrahjálpar vinna allt sitt starf í sjálfboðavinnu þannig að öll aðstoð er vel þegin. Valgerður vill nota tækifærið og beina því til fólks sem ætlar að losa sig við búr, matardalla eða annað gæludýradót að full not séu fyrir slíka hluti hjá Dýrahjálp Íslands. En hvað varð til þess að farið var af stað með þetta hjálparstarf? „Við erum öll dýravinir,“ útskýrir Valgerður. „Ferfætlingarnir ráða ekki aðstæðum sínum né geta svarað fyrir sig sjálfir. En þeir eiga fullan rétt á góðri og ábyrgri umönnun.“ Aðstandendur Dýrahjálpar ætla ekki einungis að útvega gæludýrum ný heimili í gegnum heima síðuna www.dyrahjalp.org. Markmið þeirra er að stofna sérstakt dýraathvarf, eins og að ofan greinir, auk þess að vinna almenning í landinu til fylgis og stuðnings við dýravernd. Mun dýraathvarfið taka við öllum dýrum sem þarfnast nýs heimilis og reyna að finna þeim nýtt heimili. „En áður en farið verður út í slíkt verkefni þurfa ýmsar forsendur að vera til staðar, svo og tryggur rekstrargrundvöllur,“ segir Valgerður. „En mér segir svo hugur að kreppan geti haft sömu áhrif hér og í öðrum löndum, þar sem dýraathvörf eru að fyllast.“