Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls dýr í heimilisleit.

Dýrahjálp Íslands: Vill dýraathvarf

01 Okt 2008

1. október 2008 - Fréttablaðið

„Við viljum veita heimilislausum dýrum húsaskjól,“ segir Valgerður Valgeirsdóttir viðskiptafræðingur sem á sæti í stjórn Dýrahjálpar Íslands sem var stofnað í vor. Félagið vinnur að því að setja á fót dýraathvarf, en öll vinna í þágu félagsins er sjálfboðavinna og án gróðasjónarmiða. „Við erum að hefja upplýsingaöflun vegna dýraathvarfs, en til þess þurfum við að vita hver þörfin er. Okkur skortir nákvæmar tölur um hversu mörgum heilbrigðum dýrum er lógað vegna þess að þau eru sett út af heimili sínu. Við vitum að mörg dýr lenda á flakki og eru hirt upp af dýraföngurum, sem samkvæmt opinberri reglu þurfa að lóga þeim hafi eigandi eða nýtt heimili ekki fundist eftir ákveðinn tíma í þeirra geymslum,“ segir Valgerður, sem á heimasíðu félagsins www.dyrahjalp.org hefur gert dýraeigendum kleift að mæta á miðri leið þeim sem vilja eignast dýr. „Heimasíðan er vettvangur þeirra sem vilja finna dýrum sínum ný heimili. Þar er einnig mikil eftirspurn eftir dýrum og má sjá hversu stór hópur hefur fundið nýja húsbændur, sem og lista yfir dýr í leit að nýju heimili, en þar komum við inn sem milligöngumenn. Um er að ræða dýr sem fást gefins því hér eru engin dýr seld,“ segir Valgerður og bætir við að margir misreikni þá skuldbindingu sem fylgi dýrahaldi. „Fólk gefur börnum sínum dýr og endar með því að hugsa um dýrin sjálft. Í úrræðaleysi er dýrunum lógað eða sleppt út á Guð og gaddinn, því athvarf vantar. Verði dýraathvarf félagsins að veruleika mun það taka við öllum dýrum sem þarfnast nýs heimilis og reyna að finna þeim nýjan samastað, en þangað til munum við leitast við að finna dýrum sem annars væri lógað nýtt heimili. Við höfum í einstaka tilvikum tekið dýr í fóstur, en auglýsum eftir góðu fólki sem býður sig fram til að vera með tímabundið fósturheimili fyrir dýr,“ segir Valgerður. „Í nágrannalöndunum eru rekin dýraathvörf sem taka við hvers kyns dýrum, en hér vinnur Kattholt að sama markmiði fyrir ketti. Okkar mat er því að eftirspurn sé mikil eftir athvarfi sem tekur við öðrum dýrum, því þeim sem svæfð eru á hverju ári fer fjölgandi.“ Kynning verður í Hressingarskálanum næstkomandi þriðjudagskvöld frá klukkan 19 til 22.