Dýrahjálp sendir út greiðsluseðla vegna félagsgjalda fyrir árið 2025 núna í lok árs þar sem ekki hefur náðst að senda þau út vegna anna. Við vonumst til þess að félagsmenn taki vel á móti þeim þótt seint sé.
Þetta er fjórða árið sem Dýrahjálp rukkar félagsgjöld og munu allir skráðir meðlimir félagsins, yfir 18 ára aldri, fá sendan greiðsluseðil í heimabankann sinn.
Félagsgjöldin haldast óbreytt frá árinu 2024 og eru 3.800kr. og eru félagsgjöldin valkvæð.
Starfsemi Dýrahjálpar hefur orðið mun umfangsmeiri og þyngri í rekstri síðustu ár sökum fjölda dýra í vanda og heimilisleit og því var tekin ákvörðun árið 2021 að gefa félagsmönnum kleift að styrkja starfsemina með greiðslu á félagsgjöldum til þess að geta tekið við öllum þeim dýrum sem leitað er til okkar með og halda þessu mikilvæga starfi gangandi.
Ef við hugsum upphæðina í mánuðum talið þá ertu að styrkja um 317 kr á mánuði, þó svo það hljómar ekki sem mikil upphæð þá mun það skipta sköpum fyrir þau dýr sem við munum getað aðstoðað, þökk sé þínu framlagi.
Ef þú ert ekki kominn með greiðsluseðil í heimabankann eða vilt gerast félagi og fá sendann greiðsluseðil þá getur þú skráð þig hér https://www.dyrahjalp.is/gerast_medlimur/ (það þarf að afrita textann á linknum og líma í vafra) einnig er hægt er að fara í fellilistann vinstra megin á heimasíðunni og velja "Vilt þú hjálpa?" og skrolla niður að "Gerast meðlimur" og ýta þar á "skrá meðlim". Nýskráðir meðlimir munu fá greiðsluseðla senda til sín í heimabankann fyrir 15. janúar.
Ítarlegri upplýsingar um greiðsluseðilinn:
Við reynum eftir fremsta megni að senda valgreiðslur á alla félagsmenn. Í sumum tilfellum þá hefur það ekki gengið, og þá þurfum við að senda venjulega greiðsluseðla. Það gerist meðal annars ef fólk er „rauðmerkt“ hjá þjóðskrá þar sem það er ekki hægt að senda þannig merktum kennitölum valgreiðslur. Þeir reikningar munu líkt og valgreiðslurnar ekki reikna dráttarvexti og verða felldir niður ef þeir eru ekki greiddir.
Flest þau dýr sem þurfa á fósturheimili að halda eiga ekki í nein önnur úrræði eða skjól að leita og má með sanni segja að þau væru líklega ekki hér í dag ef ekki hefði verið fyrir aðkomu Dýrahjálpar og okkar sérhæfða fósturheimila kerfis.
Sýnum dýravernd í verki og styðjum við félög sem vinna í þágu dýranna í landinu.