Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls 8,106 dýr í heimilisleit.

Styrktarbíó í Bíó Paradís þann 1. maí kl 17.

29 Apr 2025

Bíó Paradís og Dýrahjálp Íslands munu hafa sérstaka styrktarsýningu á bíómyndinni "Kisi" (e. Flow) þann 1. maí kl. 17 þar sem allur ágóði af miðasölu mun renna til Dýrahjálpar.

Um myndina:
Kisi er einmana dýr og eftir mikið flóð, finnur hann skjól á báti sem er byggður af allskonar dýrum og upphefst ævintýraferð þar sem samvinna dýranna skiptir öllu máli.
Hér er á ferðinni einstök teiknimynd með engu tali, þar sem tónlist og hljóð fær að njóta sín í heimi dýranna.
Myndin ætti að höfða til allra sem elska dýr. Því er afar viðeigandi að hafa styrktarsýningu á myndinni til styrktar Dýrahjálpar Íslands sem aðstoða dýr í neyð sem vantar ný heimili.
"Kisi" (e. Flow) hefur hlotið stórkostlega dóma um allan heim
Myndin hlaut bæði Óskarsverðlaun og Golden Globe verðlaunin sem besta teiknimyndin árið 2025.
Hún vann einnig sem besta teiknimyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum 2024 ásamt því að hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og dómnefndar- og áhorfendaverðlaunin á Annecy kvikmyndahátíðinni 2024.

Hér er því tilvalið tækifæri til að láta gott af sér leiða og sjá einstaka verðlaunamynd.
Hægt er að kaupa miða á heimasíðu Bíó Paradís:
Ath aðeins er styrktarsýning þann 1. maí.

Sumartíminn er mikill álagstími hjá okkur í Dýrahjálp. Á þeim tíma munu fleiri dýr þurfa á okkur að halda og erum við því byrjuð að undirbúa törnina. Fleiri dýrum fylgir að sjálfsögðu meiri kostnaður, eins og gefur að skilja, svo fjáröflun er mikilvægur hluti af starfinu. Þessi sýning er því hluti af þeim viðburðum og söfnunum sem félagið mun halda á næstu vikum til að fjármagna starfið.
Fyrstu 30 sem mæta munu fá að gjöf dagatal Dýrahjálpar 2025.
Dýrahjálp og félagið Villikanínur munu vera með vörusölu og kynningu á starfsemi félaganna fyrir sýningu.

Hlökkum til að sjá ykkur!!!