Skundi er 4 ára Border Collie, mjög skemmtilegur og einstaklega húsbóndahollur rakki sem leitar að framtíðarheimili.
Hann er geldur og örmerktur og almennt heilsuhraustur.
Hann er orkumikill og rosalega klár, kann meðal annars að opna hurðar til að hleypa sér sjálfur út!
Hann er mjög lífsglaður og skemmtilegur hundur sem finnst rosalega gaman að læra allskonar nýja hluti. Það væri því einstaklega gott ef nýr eigandi hefur mikinn áhuga á þjálfun hunda og atferli þeirra.
Hann er aðeins smeykur þegar hann hittir nýtt fólk, sérstaklega karlkyns og þarf þolinmæði til að byrja með.
Skundi fæddist í sveit og finnst stundum erfitt að eiga við erilinn í borginni og getur orðið hræddur við ýmis hljóð. Hann er ekki vanur því að vera skilinn eftir einn heima en með jákvæðri nálgun, þjálfun og þolinmæði þá ætti hann klárlega að geta lært það enda námsfús með eindæmum.
Göngutúrar eru ein af hans uppáhaldsiðju og elskar hann að fá að þefa að vild en finnst stundum manneskjan sín sem er í hinum enda taumsins fara heldur hægt yfir, annars lætur hann lítið trufla sig í umhverfinu þegar hann er upptekinn að skoða heiminn.
Hann er góður með öðrum hundum í smá tíma en getur ekki búið með þeim og lætur þá að mestu afskiptalusa þegar hann er úti.
Hann er vanur köttum, en á það til að fá þráhyggju yfir þeim ef þeir eru ekki rólegir eða vanir hundum.
Hann er klár og fljótur að læra og dafnar vel með manneskju sem hefur tima til að eyða með honum.
Við leitum því að heimili fyrir hann Skunda sem er barnlaust og kisulaust. Einnig væri gott að heimilið sé í rólegu umhverfi jafnvel í útjaðri bæjar.
Reynsla af hundahaldi er æskileg.
Vanur hundum
Bólusettur
Geldur
ATH: Það að vera á fósturheimili Dýrahjálpar þýðir að dýrið er í umsjá Dýrahjálpar. Dýrahjálp tekur ákvörðun um framtíðarheimili með aðstoð fósturheimilis. Öll dýr sem eru í umsjá Dýrahjálpar eru geld, örmerkt, bólusett og ormahreinsuð eins og er viðeigandi fyrir hverja dýrategund.
Athugið að einungis verður haft samband við þá umsækjendur sem koma til greina og henta dýrinu. Því er mikilvægt að gefa meiri en minni upplýsingar í umsókninni.