Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls dýr í heimilisleit.

Vilt þú vera hluti af teymi Dýrahjálpar?

17 Jún 2013

Kæru vinir.

Dýrahjálp Íslands leitar þessa dagana að framtakssömum dýravinum sem vilja verða hluti af sjálfboðaliðateymi okkar sem heldur utan um fósturdýr og fósturheimili. Ef þú hefur tíma aflögu og vilt sinna gríðarlega gefandi og krefjandi sjálfboðaliðastarfi þá endilega sendu viðeigandi upplýsingar um þig á atburdahopur@dyrahjalp.is. Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Starfsemi Dýrahjálpar snýr að því að finna heimili fyrir dýr sem vantar heimili. Vanalega eru dýrin hjá eigandanum þar til heimili finnst í gegnum heimasíðuna okkar. Í neyðartilfellum, ef heimili finnst ekki fyrir þann tíma sem eiganda gefst til að finna heimili þá bjóðum við upp á það að taka dýrið á eitt af fósturheimilum okkar. Dýrahjálp tekur frá þeim tíma alla ábyrgð á dýrinu, við sjáum til þess að dýrið fari í heilsufarsskoðun og ófrjósemisaðgerð og bíðum eftir því að hentugt heimili býðst til frambúðar.

Dýrahjálp vantar núna nokkar aðila til að aðstoða fósturdýrin og fósturheimilin okkar. Hver aðili mun bera ábyrgð á ákveðnum dýrum og fylgir þeim frá því þau koma til okkar þar til að dýrin eru komin á framtíðarheimili sín.

Tíminn sem fer í að sé um fósturdýrin er mjög misjafn eftir misserum og dýrum. Hvert dýr þarf þó fulla athygli umsjónarmanns meðan dýrið er í umsjá Dýrahjálpar.

Verkefnin snúa meðal annars að eftirfarandi:
• Sækja fósturdýr frá eigandanum (á höfuðborgarsvæðinu) og koma því til fósturheimilisins
• Sjá til þess að samningar séu undirritaðir, flokkaðir og frágengnir skv. reglum Dýrahjálpar
• Tryggja að fósturheimilið sé með allt sem þarf til að sjá um dýrin
• Sjá til þess að fósturheimilin fari með fósturdýr í læknisskoðun, geldingu, örmerkingu og bólusetningu (allur dýralæknakostnaður er greiddur af Dýrahjálp)
• Sjá til þess að fósturheimili mæti á ættleiðingardag Dýrahjálpar sem að jafnaði er haldinn einu sinni í mánuði
• Bera ábyrgð á að allar upplýsingar um fósturdýr séu settar inn í tölvukerfi Dýrahjálpar og að dýr séu auglýst á heimasíðunni
• Taka viðtal við umsækjendur um fósturdýr og ganga frá samningum og öðru þegar fósturdýr er komið með nýtt heimili
Önnur tilfallandi verkefni vegna dýra sem eru á ábyrgð umsjónarmanns

Reynsla og kröfur
• Góð reynsla og mikill áhugi á dýrum
• Tími til að geta sinnt þeim dýrum sem viðkomandi ber ábyrgð á
• Geta sýnt frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð
• Skipulagshæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum
• Góð íslenskukunnátta og góð tölvukunnátta
• Aðgengi að tölvu og interneti
• Hafa bíl til umráða og geta flutt dýr á milli staða