Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls dýr í heimilisleit.

Undirskriftarlisti afhentur ráðherra

06 Des 2012

Kæru dýravinir,

Fulltrúar frá nokkrum samtökum sem vinna í þágu dýra afhentu í dag Steingrími J. Sigfússyni athugasemdir við frumvarp um velferð dýra sem liggur í þinginu og eru 1400 manns búnir að skrifa undir.
Samtökin eru Dýrahjálp, Velbú, Dýraverndarsamband Íslands og Dýralæknafélagið

Bréfið sem fer einnig til Nefndasviðs Alþingis er svohljóðandi:

Nýtt frumvarp til laga um velferð dýra er virkilega gott og þökkum við kærlega fyrir þá miklu vinnu sem hefur verið unnin af hendi til að bæta stöðu dýravelferðarmála hér á landi.

Það eru nokkrar undantekningar í lögunum sem við teljum að samrýmist ekki tilgangi laganna.

Í 15. grein stendur: ,,Við sársaukafulla aðgerð eða meðhöndlun skal ávallt deyfa eða svæfa dýr og veita því verkjastillandi meðhöndlun, nema við eyrnamörkun lamba og kiðlinga og geldingar grísa yngri en vikugamalla."

Við viljum að undanþága frá því að deyfa grísi við geldingu verði tekin út og að grísir, eins og önnur dýr, fái deyfingu við þessa sársaukafullu aðgerð. Þá teljum við að verkjastillandi meðferð sé ekki fullnægjandi.

Í 20. grein um aflífun dýra segir ,,Óheimilt er að aflífa dýr með því að drekkja þeim, nema um sé að ræða gildruveiði minka sem hluta af skipulögðum aðgerðum til að
halda minkastofninum í skefjum."

Við teljum ekki réttlætanlegt að undanskilja eina dýrategund með þessum hætti. Þá þykir okkur einkar slæmt að undantekning þessi skuli eiga við um sunddýr.

Bréfið má einnig finna á: https://www.change.org/petitions/d%C3%BDravinir-gerum-athugasemd-vi%C3%B0-n%C3%BDtt-frumvarp-um-d%C3%BDravelfer%C3%B0

Á myndinni eru frá vinstri:
Íris Ólafsdóttir, stjórnarmaður í Velbú; Sif Traustadóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands; Steingrímur; Guðbjörg Þorvarðardóttir, formaður dýralæknafélags Íslands; Valgerður Valgeirsdóttir, formaður Dýrahjálpar Íslands.