Velkomin á vefsíðu Dýrahjálpar Íslands!

Dýrahjálp Íslands er félag sjálfboðaliða sem leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stofna til þess dýraathvarf.

Frá stofnun félagsins í maí 2008 hefur Dýrahjálp Íslands aðstoðað alls dýr í heimilisleit.

Vilt þú bjarga dýri í neyð?

28 Apr 2011

Dýrahjálp Íslands auglýsir eftir fósturheimilum sem geta staðið vaktina með okkur núna þegar sumarið nálgast. Sumarið er sérstaklega mikill álagstími vegna þess að fólk er að flytja og ferðast og mörg dýr verða því miður eftir og þurfa á okkar aðstoð að halda. Flest dýr sem koma í okkar umsjón eru heilbrigð dýr sem, ef ekki hefði verið fyrir fósturheimilin okkar, hefði verið lógað.

Dýrahjálp Íslands hefur fengið um 200 dýr í fóstur sem svo hafa fengið góð framtíðarheimili. Þetta hefði ekki verið mögulegt án góðs fólks sem opnaði heimilið sitt fyrir vegalausum dýrum og gaf tíma sinn til að sinna þeim þar til að framtíðarheimili fannst.

Við viljum vera vel undirbúin og þurfum því að hafa gott fólk á skrá sem getur tekið á móti dýri í vanda.

Skráðu þig hér: http://dyrahjalp.is/dyrin/fostur/

Hvað þýðir það að vera fósturheimili?

Að vera fósturheimili Dýrahjálpar felur í sér að vera tilbúinn að veita dýri í neyð húsaskjól á meðan leitað er að framtíðarheimili

Þú skráir þig á síðunni okkar og svo þegar við fáum beiðni um að koma dýri í fóstur sendum við út póst til allra sem við höfum á lista hjá okkur með upplýsingar um dýrið sem um ræðir. Þú ferð þá yfir þær upplýsingar og svara okkur ef þú getur tekið við umræddu dýri.

Þegar dýrið er komið til þín þá kemur fulltrúi Dýrahjálp Íslands í heimsókn (eða símtal ef viðkomandi fósturheimili er ekki á höfuðborgarsvæðinu) og fer yfir það sem þarf og svarar spurningum ef einhverjar eru.

Dýr geta þurft að vera mislengi í fóstri, sum eru einungis í nokkra daga en önnur einhverja mánuði.

Dýrahjálp Íslands er með ættleiðingadaga fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Þar koma flest dýr sem eru á fósturheimilum og fólki gefst kostur á að hitta þau og, ef þeim líst vel á, ættleiða nýjan fjölskyldumeðlim. Þarna fá mjög mörg af okkar fósturdýrum framtíðarheimili og skuldbinda fósturfjölskyldur sig til að mæta á þessa daga með fósturdýrið sitt (þarft bara að koma með og svo sækja dýrið, fulltrúar Dýrahjálp Íslands verða á staðnum til að hugsa um dýrin og taka út umsækjendur)

Þegar umókn berst þá förum við ásamt fósturfjölskyldu vel yfir umsóknina og ákveðum í sameiningu hvort þetta sé hið fullkomna framtíðarheimili eða ekki.

Stundum gengu sambúðin á nýju fósturheimili ekki upp sem skildi. Það gerist ekki oft en getur komið upp. Við reynum að vinna úr vandamálunum ef hægt er með fósturheimilinu og höfum til þess gott fólk sem hjálpar við að reyna láta hlutina ganga betur. Það er mikill stressvaldur fyrir dýr að skipta um heimili svo við forðumst það eins og hægt er að skipta oft um fósturheimili.

Það er ekkert fósturheimili skuldbundið til að hafa dýrið þar til framtíðarheimili finnst þó svo það sé æskilegt, við viljum jú hafa sem minnst rask á dýrunum. Ef þú getur ómögulega haft dýrið lengur munum við finna nýja fósturfjölskyldu handa því.

Ef fósturheimili eiga ekki það sem þarf fyrir dýrin, t.d. kattakassa, klórustand, matardalla þá eigum við slíkt til að lána með dýrinu. Einnig er hægt að fá fóðurstyrk ef þess er þörf.


Með einlægu þakklæti og von um ánægjulegt samstarf,

Dýrahjálp Íslands.